news

Starfsdagur í skólum Vesturbyggðar

02 Mar 2021

Samkvæmt skóladagatali eru starfsdagar á starfstíma nemenda í grunnskólum fimm talsins, sex í leikskólum og síðastliðinn mánudag héldum við starfsdag. Skólastjórnendur í Vesturbyggð undirbúa daginn saman og reynt er eftir fremsta megni að hafa sameiginleg námskeið og fyrirlestra. Dagurinn hófst á starfsmannafundi á hverjum stað þar sem farið er yfir ýmsa þætti tengda skólastarfinu. Eftir starfsmannafundina tóku við fyrirlestrar/námskeið þar sem starfsmenn leikskóla, stuðningsfulltrúar og skólaliðar fræddust um málþroska og læsi sem og þarfir barna. Þessir fyrirlestrar eru liður í tveggja ára endurmenntunaráætlun starfsfólks leik- og grunnskóla Vesturbyggðar.

Kennarar fengu fyrirlestur frá Ingvari Sigurgeirssyni og Lilju M. Jónsdóttur um einstaklingsmiðað nám, leiðsagnarnám og fjölbreytta kennsluhætti sem er m.a. áhersluþættir í grunnskólunum. Seinni fyrirlesturinn var um menntamál frá ríkinu og nýjar áherslur í gamansömum búningi þar sem slegið var á létta strengi. Á þessum fyrirlestrum hittust kennarar í rauntíma frá Patreksskóla, Bíldudalsskóla og Arakletti en sökum Covid hefur það ekki verið hægt. Að sjálfsögðu var fyllstu smitvarna gætt.

Starfsdagurinn í skólum Vesturbyggðar var mjög árangursríkur, fræðandi og skemmtilegur og stjórnendur leggja metnað í að dagarnir nýtist í fjölbreytta starfsþróun með áherslur skólaársins að leiðarljósi. Það að halda sameiginlega starfsdaga eða að hluta til eykur samstarf milli skólanna og styrkir faglegt lærdómssamfélag í skólasamfélaginu.